149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Ég vil ekki taka undir að skortur sé á stefnu yfir höfuð í þessu plaggi. Við hv. þingmaður höfum um margt bæði líka og ólíka sýn á það hvernig eigi að setja fram áætlun eins og hér birtist.

Kjarasamningar, hvort sem það eru þeir sem við erum að fást við núna eða sem eftir eiga að koma, sem beinast þá sérstaklega að ríkinu, verða með allt öðrum hætti en áætlunin gerir ráð fyrir. Ég held að það hljóti þá að vera hluti af því sem varasjóðurinn getur tekist á við vegna þess að það væri langt umfram þær áætlanir sem gerðar hafa verið, en við getum aldrei séð það fyrir. Gleymum því ekki að þetta er áætlun sem gerir ráð fyrir einhverjum tilteknum þáttum. Þetta er ekki eitthvað sem er orðið eða þarf að verða nákvæmlega eins og hér er lagt upp með. Nú er þingið með þetta til umfjöllunar.