149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við sátum yfir þeim lögum í langan tíma. Þegar hv. þingmaður segir að stefnan sé að bíta núna höfum við samt sem áður aldrei sett eins mikið í innviðauppbyggingu og hin ýmsu mál til margra ára, og þá er ég líka að tala um fyrir hrun. Við erum að setja fjármuni í ótal marga hluti, þannig að mér finnst stefnan ekki vera að bíta, ekki enn þá að minnsta kosti. Ég er ekki alveg sammála því.

Ég og hv. þingmaður erum hins vegar sammála um 7. gr. laganna, sem við myndum væntanlega breyta fengjum við færi til þess.

Varðandi það hvort við breytum stefnunni, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór yfir í dag, það er auðvitað alger forsendubrestur ef hagvöxtur fer í 0%, gríðarlega mikill forsendubrestur. Ég tel að það sé eitthvað sem við gætum (Forseti hringir.) horft til, vil þó ekki fullyrða að við gætum endurskoðað (Forseti hringir.) stefnuna á þeim forsendum. En ég tel (Forseti hringir.) að þetta sé líka eitt af því sem mér finnst að við eigum að fá svolítið (Forseti hringir.) frá fjármálaráðinu inn í vinnu nefndarinnar.