149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í áætluninni að ríkisstjórnin áætlar frekari breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis frá og með næsta ári og bætist það ofan á fyrirhuguð veggjöld. Í áætluninni segir beinlínis:

„Breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis ásamt gjaldtöku á ferðamenn koma til með að draga úr ráðstöfunartekjum heimilanna í formi hærra verðlags.“

Á öðrum stað segir í áætluninni að sá litli hagvöxtur sem spáð er verði drifinn áfram af einkaneyslu. Á sama tíma og ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því í áætlunum sínum að heimilin eigi að halda uppi hagvextinum skattleggur hún þessi sömu heimili þannig að þau hafa ekkert svigrúm til að halda uppi hagvexti í formi einkaneyslu.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki sé þversögn í þessu innan áætlunarinnar.