149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað lagabreytingar varðar vegna kostnaðarmats er það mjög skýrt í lögunum og greinargerðinni með þeim. Ég segi að þessi fjármálaáætlun sé úrelt af því að ég býst við miklum breytingum á henni í meðhöndlun þingsins. Það þýðir að umsagnir sem við fáum um skjalið sem við erum að tala um núna byggja á þeirri útgáfu en ekki þeirri útgáfu sem við komum til með að afgreiða frá þinginu, það verður væntanlega það miklu breytt.

Ég segi líka að áætlunin sé úrelt af því að hún er ekki samkvæmt lögum um opinber fjármál. Það vantar þau atriði sem við höfum bent á aftur og aftur. Ef eitthvað er er þetta verra en í fyrri áætlun. Það er það sem ég á við þegar ég segi að fjármálaáætlun hafi orðið úrelt eftir að hún kom úr prentun.

Svo eru að sjálfsögðu atriði eins og stefna stjórnvalda um að lengja fæðingarorlofið, sem er ekki úrelt stefna. Ég er að tala um áætlunina, það hvernig Alþingi getur meðhöndlað þetta plagg, hvernig við getum lesið okkur í gegnum það og skilið hvað við erum að samþykkja, þannig að við sjáum þegar þetta kemur inn á fjárlögum, sem eiga að vera samkvæmt fjármálaáætlun, eitthvert samræmi þarna á milli. Það átti að spara tíma þingsins í yfirferð á fjárlögum með því að hafa fjármálaáætlun, þannig að búið væri að fara yfir helstu atriðin. En það er ekki svo af því að þetta plagg er ekki gagnsætt, það er ekki sundurliðað á þann hátt sem ætlast er til samkvæmt lögunum. Þá þurfum við að fara aftur í gegnum allt ferlið þegar kemur að fjárlögunum, að útfærslu fjármálaáætlunar. Þess vegna segi ég að þetta plagg sé úrelt.