149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætla að taka eitt dæmi af því að hv. þingmaður dró það fram sem sannarlega er það jákvæða sem kemur hér til viðbótar við gildandi fjármálaáætlun 2019–2023, þ.e. sú áætlun sem við ræðum, 2020–2024, sem er til að mynda lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði á árunum 2020 og 2021. Kostnaður af þeirri aðgerð nemur 900 millj. kr. 2020, 2,7 milljörðum kr. 2021 og 3,8 milljörðum kr. frá og með árinu 2022. Þetta er auðvitað bara kostnaðarmat. En þetta eru stóru línurnar. Þetta er það sem lögin mæla fyrir um.

Þetta var eitt dæmi. Sama á svo við um hækkun stofnframlaga til almennra íbúða, af því að það var ágætiskafli í ræðu hv. þingmanns um það hvaða hópar hafa setið eftir vegna þess að leiguverð á húsnæði hefur hækkað umfram kaupmáttaraukningar sem kemur niður á ákveðnum hópi, sem er m.a. viðfangsefni í kjarasamningum. Hækkun stofnframlaga til almennra íbúða er um 2,1 milljarður til ársins 2022. Þetta er allt kostnaðarmetið á þennan hátt.

Síðan eru tiltekin markmið hjá ráðuneytum, fjöldinn af markmiðum sem við vitum að getur verið erfitt að kostnaðarmeta langt inn í framtíðinni. Ég held að þegar tímar líða og við förum að fara í gegnum skýrslur ráðherra hjá þeirri ríkisstjórn og ráðherrum sem hafa sett stefnuna, sem verður í fyrsta skipti nú í sumar, munum við á raunhæfari hátt geta náð utan um það að kostnaðarmeta tiltekin markmið, smærri verkefni, hjá hinum ólíku ráðuneytum.