149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um þessar umsagnir sem við kölluðum eftir í fjárlaganefnd og einmitt þá staðreynd sem við tölum um áðan að það er mjög lítið kostnaðarmetið af aðgerðum stjórnvalda nema þær séu hluti af þessum forreiknuðum stærðum eins og t.d. fæðingarorlofinu, sem er auðveldara að kostnaðarmeta.

Þá er ýmislegt annað sem er verið að leggja til eins og í nýsköpun, sett fram ákveðin tala þar en það er ekki klárað, ekkert sagt hver ávinningurinn af því verður. Það er stefnt að ýmsu, t.d. sjóð um styrkingu á einhverjum matvælaiðnaði o.s.frv. en ekki sagt hversu mikill hluti af nýsköpunarhlutanum fer þangað. Það er skiptingin líka sem skiptir máli, ekki nóg að segja bara hver stóra upphæðin er heldur þarf að vita hvernig hún skiptist á milli þeirra verkefna sem stjórnvöld leggja upp með stefnu sinni.

Þar kem ég aðeins að umsögnunum. Umsagnaraðilar koma og segja: Þessi matvælasjóður er mjög fín hugmynd, við höfum fullt af hugmyndum um það hvaða verkefni væri hægt að vinna og hvað er augljóst að gera en við vitum ekki upphæðina sem á að leggja í þetta, umfangið sem verið er að fara í. Þar af leiðandi getum við ekki sagt neitt rosalega gáfulegt í rauninni um það hvort stefna stjórnvalda nái þeim markmiðum sem ætlað er. Enda eru markmiðin líka tiltölulega óljós. Ég hef áhyggjur af því, eins og ég talaði um í ræðu minni, að áætlunin sé dálítið ónothæf. Við fáum ekki nægilega góðar umsagnir ef áætlunin er ekki nákvæm og ef hún er ekki samkvæmt lögum um opinber fjármál. Hvað getum við gert til að betrumbæta það?