149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir prýðisspurningu. Við hv. þingmaður tókum nú aðeins umræðu um þetta, ég í andsvari við ræðu hv. þingmanns, og við höfum rætt þetta mikið í hv. fjárlaganefnd. Ég er í grunninn sammála hv. þingmanni. Þess vegna er erfitt að standa hér og rengja eitt eða neitt í þessum efnum.

Við höfum í þessari áætlun meginlínur og meginkostnaðarstærðir. Síðan kemur að tilteknum verkefnum, mörgum jákvæðum eins og hv. þingmaður kom inn á varðandi nýsköpun, t.d. matvælasjóð og öll þau hundruð verkefna sem birtast í áætluninni á þessum 469 blaðsíðum sem við vorum að lesa nú um helgina, okkur (Gripið fram í: Til skemmtunar.) til skemmtunar. Þá vil ég ítreka að í þessari áætlun er mjög faglegur og góður texti, vil ég meina, hagfræðitexti sem er mjög gagnlegur.

Varðandi kostnaðarmatið þurfum við að bæta áætlanagerð. Ég ætla bara að segja það hér, virðulegur forseti, að það er verkefni m.a. hv. fjárlaganefndar og það er ákall frá okkar hv. nefnd til ráðuneytanna og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að vinna í því með okkur að bæta kostnaðarmat tiltekinna verkefna. Þá þurfa öll ráðuneyti auðvitað að vera nákvæmari með hvert þau eru að fara með stefnuna. Meginlínurnar liggja fyrir og ég held að þegar við förum oftar í gegnum þetta ferli og náum loks til enda í því þá munum við bæta úr þessu. (Forseti hringir.) Við munum sannarlega kalla eftir minnisblöðum um tiltekin verkefni eins og við höfum hingað til gert.