149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vísaði til ummæla minna, í ágætri ræðu sinni, um að efnahagsforsendur þessarar áætlunar væru í raun brostnar. Nú er það alveg ljóst og Hagstofan hefur raunar þegar lýst því að það að loðnuvertíð hafi brugðist þýði minni hagvöxt en gert er ráð fyrir í þeirri hagspá sem hér er lögð til grundvallar. Það blasir líka við, í þeim erfiðleikum sem eru til umfjöllunar varðandi vanda ferðaþjónustunnar á hverjum degi í fjölmiðlum, að þar eru horfur talsvert lakari fyrir yfirstandandi ár. Í ágætri sviðsmyndagreiningu í fjármálaáætlun er dregin upp nokkuð raunsönn mynd af þeim efnahagslega veruleika sem við er að etja þessa stundina og sagt að gangi sú sviðsmynd eftir gæti afkoma ríkissjóðs strax á næsta ári orðið einhverjum 15 milljörðum lakari og undir lok áætlunarinnar nær 60 milljörðum lakari en áætlunin gerir ráð fyrir og eru þó ærnir óvissuþættir ótaldir þar.

Ég velti því fyrir mér, og ég spurði hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur að því sama áðan, hvort eigi undan að láta við þessi skilyrði, þau áform sem höfð eru uppi um frekari útgjaldaaukningu eða þau áform sem uppi eru varðandi skattalækkanir á gildistíma áætlunarinnar. Það hefur mikið verið rætt að þetta sé hættulegur kokteill sem þessi ríkisstjórn er stofnuð um, eða sú efnahagsstefna sem þessi ríkisstjórn er stofnuð um, að ætla hvort tveggja í senn að auka raunútgjöld ríkissjóðs svo mikið sem raun ber vitni og lækka skatta í ofanálag. Nú virðist vera komið að þeim tímapunkti að velja þurfi á milli. Því spyr ég hv. þingmann: Hvort skal velja?