149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég er auðvitað sammála honum. Ég tel mikilvægara í þeirri stöðu sem nú er að standa við áform um lægri álögur en mjög metnaðarfull áform um stóraukin útgjöld, enda erum við að horfa á umhverfi þar sem búið er að auka útgjöld til grunnreksturs ríkissjóðs um meira en 50% að raungildi á fáum árum og stefnt að viðbót. Eitthvað verður á endanum undan að láta.

Það leiðir hugann að hinni spurningunni um það hvort tilefni sé til, og hvort okkur sé jafnvel heimilt, að endurskoða fjármálastefnuna sem áætlunin byggir á. Eins og hv. þingmaður kom að í ræðu sinni hefur gagnrýni fjármálaráðs m.a. snúið að því að á þessum miklu uppgangstímum hafi afkomuviðmið vissulega verið gólf en þess sé ekki krafist af ríkinu að ríkissjóður sé rekinn í gólfinu. Raunar mátti skilja fjármálaráð þannig að það hefði viljað sjá talsvert myndarlegri afgang til þess einmitt að skapa svigrúm til að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi.