149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni og formanni fjárlaganefndar fyrir góða ræðu. Á bls. 395 í áætluninni er fjallað um örorku og málefni fatlaðs fólks. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir því í áætluninni að bregðast þurfi við hugsanlegri útgjaldaaukningu vegna leiðréttinga á örorkugreiðslum af völdum búsetuskerðinga en umfang málsins sé enn til skoðunar hjá félagsmálaráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins

Um þetta vil ég segja tvennt, herra forseti. Í fyrsta lagi er þessi útgjaldaaukning staðreynd, hún er ekki hugsanleg. Ríkisstjórnin verður að horfast í augu við það. Þessi framsetning í áætluninni hvað þetta varðar er því svolítið einkennileg. Það er staðfest af velferðarráðuneytinu að Tryggingastofnun hefur hlunnfarið stóran hóp öryrkja á undanförnum árum.

Í öðru lagi á það að liggja fyrir í áætlun sem þessari að mínu mati, sem er til fimm ára, hversu mikla peninga þessi leiðrétting kemur til með að kosta ríkissjóð. Það er talað um milljarða og ef rétt reynist eru það umtalsverðar fjárhæðir.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann fyrir sér að þetta verði fjármagnað? Verður brugðist við með því að nota varasjóðinn? Eru þetta ófyrirséð útgjöld? Jú, væntanlega er hægt að segja það en hér hefur verið rætt um varasjóðinn í öðru samhengi og það gæti farið svo að hann tæmdist ef hann yrði nýttur í það verkefni sem hér hefur verið nefnt. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta verði fjármagnað?