149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Athyglisvert sem hann nefndi þarna, að það sé búið að reikna út að það kosti hátt í 500 milljónir að greiða 200 einstaklingum. En það er talað um að þarna eigi um 1.100 einstaklingar hlut að máli. Þá sjáum við að hér er um verulega háa upphæð að ræða. Það er alveg óyggjandi að öryrkjar hafa verið hlunnfarnir með þessar greiðslur og það ber að greiða þetta.

Ég hefði talið eðlilegt að þegar um svona háa upphæð er að ræða þá væri það sett fram í áætluninni með einhverjum hætti. Það er hægt að áætla þennan kostnað í ljósi t.d. þessara 200 einstaklinga sem er búið að reikna út. Þá sjáum við að þetta skiptir einhverjum milljörðum. Það er fullkomlega eðlilegt í (Forseti hringir.) mínum huga að það sé áætlun um það hvernig svo há upphæð verður fjármögnuð og greidd.