149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:42]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er eiginlega dálítið snúið að velja sér hvernig maður eigi að fjalla um þessa fjármálaáætlun. Ég veit eiginlega ekki alveg hvort ég eigi að taka hana alvarlega, af því að mér finnst blasa augljóslega við að efnahagslegar forsendur hennar eru brostnar og sú umræða á ekki að koma neinum á óvart. Varað var við því strax í upphafi þegar til þessa ríkisstjórnarsamstarfs var stofnað að það gæti ekki gengið út í hið óendanlega að ætla hvort tveggja í senn, að auka útgjöld jafn mikið og raun ber vitni og lækka skatta. Hagkerfið myndi einfaldlega ekki bera þær skuldbindingar fyrir ríkissjóð og það væri fullkomlega óábyrgt að ætla að það hagvaxtarskeið sem þá var þegar augljóslega orðið nokkuð spennt gæti haldið áfram inn í eilífðina. Ágætt er að rifja upp þau viðvörunarorð sem voru höfð hér í þessum sal, bæði í umræðu um fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar og fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, en ekki síður í fjölmörgum umsögnum um sömu skjöl ríkisstjórnarinnar fyrir rösku ári. Ítrekað var bent á þá einföldu staðreynd að sú efnahagsþróun sem ríkisstjórnarsamstarfið gengi út frá sem gefnum hlut hefði bara aldrei átt sér stað í íslenskum veruleika. Ég held að hagsagan sé full af dæmum um það að staðhæft hafi verið að þetta væri öðruvísi í það skiptið, þetta myndi víst getað gengið eftir. En nú stöndum við hér, 14 mánuðum eftir að til ríkisstjórnarsamstarfs var stofnað, og veruleikinn blasir við okkur. Það er alveg augljóst. Þetta var ekkert öðruvísi í þetta skiptið. Það var frá upphafi óraunhæft að búast við því að þetta gæti gengið svona til eilífðarnóns og það svigrúm til útgjaldaaukningar sem ríkisstjórnin taldi sig hafa er einfaldlega ekki fyrir hendi.

Þegar maður sest yfir fjármálaáætlunina og reynir að greina hana veltir maður fyrir sér til hvers lagt var upp í þessa vegferð. Lagt var upp í vegferðina vegna gerðar vandaðra fjármálaáætlana fyrir ríkissjóð til að koma í veg fyrir það sem hefur verið einkenni íslenskra ríkisfjármála í svo langan tíma, að ríkisfjármálin eru sveifluaukandi fyrir hagkerfið. Við eyðum alltaf því sem streymir inn í ríkissjóð á uppgangstíma og þurfum svo að skera niður, jafnvel í grunnrekstri ríkisins, á sama tíma og hagkerfið er að takast á við efnahagssamdrátt. Það voru vítin sem menn töldu mikilvægt að varast. Það var t.d. stóri lærdómurinn af hruninu að í kjölfar þess, sem var vissulega mjög alvarlegt efnahagslegt áfall, var ríkissjóður ekki í stakk búinn til að standa undir þeim grundvallarloforðum sem gefin höfðu verið í velferðarkerfinu og þar þurfti að skera mjög myndarlega niður og við höfum raunar ekki enn getað staðið með sæmilegum hætti að innviðauppbyggingu allar götur frá hruni. Við höfðum ekkert svigrúm til þess eftir hrun og við höfum í rauninni aldrei náð almennilega vopnum okkar eða náð að greiða upp þá innviðaskuld sem þar skapaðist.

Núna stöndum við frammi fyrir því aftur þegar tekið er að kólna. Það er heldur engin ástæða til að ýkja þá mynd óhóflega. Staða ríkissjóðs er vissulega mjög sterk. Staða íslenska efnahagslífsins er vissulega í sögulegu samhengi mjög sterk. Við erum bara einfaldlega að fara í gegnum aðlögun, sem engu að síður getur haft umtalsverð áhrif á afkomu ríkissjóðs og höfum séð þau dæmi áður. Ég hef áður vísað til veruleika t.d. áranna 2001–2003, þar sem íslenska hagkerfið fór í gegnum sennilega einna mýkstu lendingu fyrr og síðar, sem engu að síður leiddi til hallareksturs hjá ríkissjóði í þrjú ár og meira að segja nokkuð umtalsverðs hallareksturs, af því að við þekkjum það alveg að íslenska hagkerfið er eitt það sveiflukenndasta í heimi. Við vitum alveg viðbrögðin. Það verður ákveðin stöðnun þegar við förum í gegnum slíka aðlögun. Það kunna allir að bremsa þegar þau hættumerki birtast á sjóndeildarhringnum og við sjáum það nú þegar vera að gerast í öllum hagtölum. Atvinnuvegafjárfesting er að minnka, horfur eru á að jafnvel verði enn frekari minnkun þar.

Í hagspám er enn gert ráð fyrir mjög myndarlegri aukningu í íbúðafjárfestingu á þessu ári og næsta, þrátt fyrir að augljós kólnunarmerki séu komin fram og bankakerfið hætt að lána eða dregið verulega úr lánveitingum til íbúðabygginga. Það er alveg augljóst þegar við rýnum í tölurnar að hagkerfið er að bremsa mjög skart fyrir framan okkur. Einkaneysla tekur mið af því. Það er alveg viðbúið að atvinnuleysi muni aukast eitthvað og afkoma ríkissjóðs kunni tímabundið að versna talsvert, ekkert sem ekki er hægt að takast á við eða ráða við, ekkert sem við höfum ekki séð áður. En það er bara þetta með að draga lærdóm af sögunni, að við þurfum ekki enn og aftur að fara í gegnum það ferli að samhliða þessari aðlögun í efnahagslífinu þurfi ríkissjóður líka að fara að skera niður útgjöld, skera niður innviðafjárfestingar, sem við höfum ekki efni á að skera niður enn og aftur.

Verkefnið sem blasir við okkur núna þegar við horfum á þessa fjármálaáætlun, því að ekki getum við sent hana til baka, er að fjárlaganefnd þarf væntanlega að takast á við að gera á henni nauðsynlegar aðlaganir, það verður að forgangsraða í áætluninni fyrir innviðafjárfestingarnar. Það verður að trappa eitthvað niður þau bólgnu útgjaldaáform sem ríkisstjórnin hefur ef við eigum að geta staðið vörð um þær nauðsynlegu innviðafjárfestingar sem við þurfum að ráðast í og sem einmitt er mjög hentugt að ráðast í á þessum tímum. Ég held líka að mjög ráðlegt sé að hafa það í huga að við sköpum ekki hættuleg fordæmi, t.d. varðandi fjármálastefnu. Enn sem komið er er ekkert sem bendir til þess að kólnunin í hagkerfinu sé af því tagi að hún geti talist ófyrirsjáanleg eða óvænt með einhverjum hætti eða kalli beinlínis á endurskoðun fjármálastefnunnar sem slíkrar.

Vandinn var hins vegar sá, eins og fjármálaráð benti á í umsögn sinni um fjármálastefnu á sínum tíma, að notast var nánast við afkomumarkmið fjármálastefnunnar sem þak en ekki gólf, þ.e. þess var ekki gætt að skapa jafnvel dálítið gott svigrúm til að reka ríkissjóð vel fyrir ofan þetta gólf í gegnum hápunkt hagsveiflunnar til þess einmitt að hafa svigrúm til að bregðast svo við þeirri kólnun sem við stöndum frammi fyrir núna.

Ég held að þessi staðreynd muni hins vegar reyna nokkuð á stjórnarsamstarf þessara þriggja flokka. Það er nefnilega komið að skuldadögum í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Það er komið að skuldadögum í fjármálaáætlun. Komið er í ljós að það gengur ekki til lengdar að ætla sér hvort tveggja, að auka raunútgjöld ríkissjóðs um jafnvel tugi prósenta og lækka skatta, að málamiðlunin sem núverandi ríkisstjórn er stofnuð utan um gengur einfaldlega ekki lengur upp. Og þá þarf að velja; hvort á að hætta við skattalækkanir, sem ég teldi algjört óráð á þessum tímapunkti, því að einmitt á þeim tímapunkti sem hagkerfið er að ganga í gegnum ákveðna aðlögun getur verið mjög hentugt að ríkissjóður hafi eitthvert svigrúm til skattalækkana til að bæta stöðu atvinnulífs og heimila, eða hvort eigi að rifa aðeins seglin í útgjaldaaukningunni sem kann að reynast sumum flokkum í stjórnarsamstarfinu mjög erfitt.

Það leiðir hugann að því að hér er enn boðað til nýrra útgjaldahugmynda, eins og endurskoðun á námslánaumhverfi, lengingu fæðingarorlofs, viðbót inn í nýsköpunarumhverfi o.s.frv. Allt eru þetta mjög góð verkefni. En nú erum við einfaldlega komin að þeim tímapunkti að það verður að forgangsraða í ríkisfjármálunum og það held ég að muni reynast ríkisstjórninni mjög erfitt, því að hingað til hefur samstarfið gengið út á það að hægt sé að auka nánast viðstöðulaust á öllum málefnasviðum.

Ágætt er að hafa í huga að það eru ekki bara efnahagslegar forsendur sem eru veikleiki þessarar fjármálaáætlunar. Það er enn ekkert samkomulag við sveitarfélögin, en gert er ráð fyrir að skerða eigi framlögin að raungildi í jöfnunarsjóð, að sveitarfélögunum sé gert að taka á sig töluverðan hluta aðlögunar að kólnandi hagkerfi á sama tíma og sveitarfélögin hafa verið rekin með algjörlega ófullnægjandi afgangi og rennir sennilega stoðum undir þann veikleika sem er í fjármögnun þeirra til lengri tíma litið. Ekki verður komist hjá því að horfa til þess að þær launaforsendur sem hér er gert ráð fyrir eru mjög veikar og kannski ekki hvað síst þegar kemur einmitt að almannatryggingakerfinu, þ.e. að búa eigi við sömu launaforsendur, eins og ég skil, að þar eigi að hagræða í ríkisrekstri með því að skerða kaupmátt þessara hópa, þ.e. eldri borgara og öryrkja, í samanburði við aðra hópa í samfélaginu. Ég held að enginn friður skapist um það til lengdar.

En þegar öllu er á botninn hvolft — við verðum að horfast í augu við þann efnahagslega veruleika. (Forseti hringir.) Forsendur fjármálaáætlunarinnar voru brostnar þegar hún var lögð fram og það verður verkefni þingsins að takast á við það.