149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að ég gagnrýndi á sínum tíma að dregið væri úr viðmiðunum og kannski fyrst og fremst vegna þess að ég taldi mjög mikilvægt að ríkissjóður drægi vagninn með góðu fordæmi. Enda kom á daginn t.d. varðandi bráðabirgðatölur um uppgjör á afkomu hins opinbera fyrir árið 2018 að sú krafa sem þar var gerð á sveitarfélögin um afgang stóðst ekki. Ríkissjóður var vissulega rekinn með heldur betri afgangi en ráð var fyrir gert. En það virðist vera undirliggjandi veikleiki í afkomu sveitarfélaganna, nokkuð sem ég held að við þurfum að taka á í umræðunni um framtíðarfjármögnun, bæði varðandi breiðari tekjugrunn sveitarfélaganna en ekki síður um það hvort sveitarfélögin hafi notið sanngirni við yfirfærslu verkefna eins og grunnskólans en ekki síður málefna fatlaðra, sem þau hafa ítrekað bent á að séu vanfjármögnuð verkefni.

En það reynir á þetta fordæmi núna. Það kann vel að koma til þess að endurskoða verði fjármálastefnuna. En það hlýtur að vera viðfangsefni fjárlaganefndar að skoða hvaða fordæmi (Forseti hringir.) við setjum þar og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að það sé tæk leið.