149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og mjög áhugaverða spurningu. Það hefur gjarnan verið vísað til þess undanfarin misseri að útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu og þar með talið samneyslustigið hafi staðið nokkuð óbreytt. En hér kemur að því sem mætti kalla, með ákveðnum hætti, innbyggða sveiflujöfnun ríkisfjármálanna í gegnum tíðina, að á tímum efnahagslegs uppgangs sparast ýmislegt í útgjöldum ríkissjóðs. Það er minna atvinnuleysi, hærra neyslustig, þannig að bæði kemur sterk tekjuhlið inn og minni útgjöld út af ýmsum ástæðum. Þess vegna hefur reynslan verið sú, ef maður skoðar ríkisfjármálin sem hlutfall af landsframleiðslu í gegnum löng tímabil, að útgjöldin hafa tilhneigingu til að lækka, jafnvel talsvert, á tímum efnahagsuppgangs sem hlutfall af landsframleiðslu, en hækka svo á nýjan leik á tímum samdráttar. Það er, held ég, líka veikleiki þessarar fjármálaáætlunar sem við höfum ekkert rætt enn þá, þ.e. að þau áhrif sem eru teiknuð upp á ríkissjóð af einhvers konar sveiflu eða samdrætti eða jafnvel bara hægari vexti í hagkerfinu eru mjög lítil í þessari fjármálaáætlun miðað við það sem við höfum séð áður. Sveiflunæmni fjármála ríkissjóðs eru miklu meiri í gegnum tíðina, eða hafa verið hingað til alla vega, heldur en sú mynd sem hér er dregin upp.

Ég held að það sé ekki málsvörn mikillar útgjaldaaukningar að segja að við hefðum haldið svipuðu samneyslustigi eða útgjaldastigi ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu í gegnum alla uppsveifluna. Það er þvert á móti einmitt einkenni þess að við höfum verið að auka útgjöldin gríðarlega mikið. Það er þvert á þróun fyrri ára og áratuga þar sem samneyslustig og útgjaldastig ríkissjóðs hefur haft tilhneigingu til að lækka talsvert á tímum efnahagsuppgangs en hækkað svo á nýjan leik þegar dregur saman.