149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það væri afskaplega notalegt ef við gætum bara sett þjóðarskútuna á sjálfstýringu, en svo er ekki. Það er alveg ljóst að við höfum þurft að sigla henni í gegnum ansi margan brimskaflinn og oft hefur gefið mun meira á bátinn en akkúrat nú. Það er ljóst að við stöndum mun betur efnahagslega en við höfum gert um langan tíma. Það er líka ljóst að hagkerfi okkar hefur vaxið og dafnað, þrefaldast frá árinu 2010. Er það nánast met, myndi ég segja, næstum því hvert sem litið er.

En hvað þýðir það? Hvað þýðir það að leggja fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára og tala um alla óvissuna, öll óvissustigin sem við höfum verið að horfast í augu við núna, loðnubrest og vandræði í flugrekstri? Reyndar eru miklar sviptingar í flugrekstrinum núna, sem ég stend hér og tala, og ekki enn þá loku fyrir það skotið að jákvæðar breytingar eigi eftir að verða þá átt. Það er því ekki bara dimmt. Það sem stendur í rauninni upp úr af öllum þeim óvissuþáttum, eins og ég sé það, er sú kjarabarátta sem fram undan er. Hvað mun hún leiða af sér ef við getum ekki komið betur til móts við það lágmarksréttlæti og þær lágmarkssanngirniskröfur sem okkar minnstu bræður og systur kalla eftir?

Ríkisstjórnin kom með útspil sem var í rauninni blaut tuska í andlitið, 6.500 kr. lækkun á skattbyrði á næstu þremur árum, jafn mikið til mín með hátt í 2 millj. á mánuði í laun og til verkakonunnar sem fær 220.000 kr. útborgaðar. Hæstv. fjármálaráðherra spyr gjarnan hvort við séum að tala um að þeir sem eru í millistétt og í jaðarhópum í samfélaginu eigi þá alls ekki að uppskera nokkurn skapaðan hlut, eigi ekkert að fá í sinn hlut. Það eru útúrsnúningar, virðulegi forseti.

Það er enginn að tala um það þegar við erum eingöngu að einblína á þá sem bágustu kjörin hafa í samfélaginu. Við erum að tala um að útrýma fátækt. Það væri afskaplega fallegt að sjá í fimm ára fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar eitt stórt markmið um að útrýma fátækt. Það öflugasta og farsælasta sem við gætum gert er að útrýma fátækt í landi sem við státum af að sé eitt ríkasta og farsælasta land á jörðinni í dag. En það er ekki svo. Talað er um hækkun á barnabótum en þær eru langt frá því að vera á pari við það sem þær voru í kringum hrun. Talað er um nýsköpun. Talað er um góða hluti, en það er líka verið að lækka veiðigjöldin. Það er líka verið að lækka bankaskattinn. Þetta tvennt eru 11,3 milljarðar, sem ríkissjóður verður þá af á árinu 2019.

Ef maður horfir á réttlætið þá sýndu niðurstöður rannsókna t.d. hagdeildar Alþýðusambandsins að heildarskattbyrði launafólks, að teknu tilliti til persónufrádráttar, útsvars og annars slíks, barna-, vaxta- og húsnæðisbóta, hafi aukist hjá öllum tekjuhópum á tímabilinu 1998–2016. Það er alveg frábært. Hver ætlar að mæla því mót? En langmesta aukning á skattbyrði er hjá tekjulægstu hópunum. Þetta er ástæðan fyrir því að við horfum núna upp á ólgu á vinnumarkaði, yfirvofandi verkföll sem eru alger nýlunda fyrir okkur miðað við síðustu 30 ár. Ég held að við þurfum að horfa allt að 20–30 ár aftur í tímann án þess að sjá annað eins og við horfumst í augu við í dag.

Ferðaþjónustan ræðst af því að við höfum starfsmenn til að sinna henni, hún ræðst af því að við höfum ferðamenn til að koma til landsins og auðvitað verðum við að hafa flugvélar — við höfum reyndar 30 aðra aðila til að flytja hingað fólk en okkar ágætu íslensku flugfélög. En staðreyndin er sú að ef verkafólkið okkar, þeir sem sjá um að halda gangandi þeim keðjum sem snúa að því að taka utan um ferðafólkið okkar, ef við ætlum virkilega að horfast í augu við að fá þann skell í andlitið sem virðist vera í kortunum munum við horfast í augu við enn meiri óvissu en þá sem við erum að tala um hér og nú í sambandi við fjármálaáætlun.

Af hverju sjáum við ekkert um okurvexti og húsnæðisliðinn? Af hverju sjáum við ekki þau réttlætismál þarna inni? Af hverju getum við ekki litið til þess að þúsundir Íslendinga búa við bág kjör? Af hverju viðurkennum við það ekki? Yfir 10.000 fjölskyldur misstu heimili sín í hruninu. Hvað var gert fyrir það fólk? Er það ekki akkúrat út af því fólki sem hæstv. fjármálaráðherra getur sagt að skuldastaða heimilanna hafi aldrei verið betri en nú? Er það ekki vegna þess að það er sannarlega ekki verið að innheimta skuldir af þeim 10.000 heimilum núna, af því að heimilin voru tekin af þeim? Þetta er stór hópur í samfélaginu sem getur ekki einu sinni farið í greiðslumat. Ég kalla þetta afneitun, alveg gríðarlega afneitun á raunveruleikanum.

Mig langar að nefna húsnæðisliðinn vegna þess að fyrir lágu fyrirspurnir sem svör fengust við hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem upplýsti um þau áhrif sem húsnæðisliðurinn hefur raunverulega haft. Á fimm ára tímabili, frá árinu 2012–2017, höfðu verðbætur á íbúðalán vegna almennra verðhækkana numið 15 milljörðum kr. — hugsið ykkur, 15 milljörðum kr. — en á sama tíma lögðust 118 milljarðar aukalega ofan á verðtryggð íbúðalán vegna áhrifa húsnæðisliðar vísitölunnar. Hlutur húsnæðisverðsins í verðbótunum er hvorki meira né minna en 88,7%.

Hvernig getur ríkisstjórn talað um velsæld og stöðugleika þegar 10% barna líða efnahagslegan skort? Þegar öryrkjar eru fastir í fátæktargildru? Skipta þeir ekki máli? Skipta þeir ekki máli fyrir hagsældina? Eru þeir bara kostnaðarliður? Eru þeir bara örorkubyrði, eins og maður hefur svo gjarnan heyrt? Þeir búa við krónu á móti krónu skerðingar og svo er þeim kennt um það í ofanálag ef ekki er hægt að skrifa undir starfsgetumat.

Virðulegi forseti. Maður er orðinn gjörsamlega orðlaus yfir því hvernig komið er fram við þá sem hafa bognustu bökin og virðast alltaf mega bogna meira.

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, lækkun veiðigjalda og bankaskatts, er sem blaut tuska í andlit þeirra sem berjast í bökkum og ná ekki endum saman frá mánuði til mánaðar, hafa einfaldlega ekki nóg á milli handanna til að uppfylla viðurkenndar samfélagslegar grunnþarfir, eiga ekki fyrir fæði, klæði og húsnæði. Hvernig í veröldinni getur fátækasti þjóðfélagshópurinn trúað mýtunni um það að hann fái notið réttlætis og grundvallarmannréttinda? Staðreyndin er sú að það er ótrúlega stór hópur úti í samfélaginu sem býr ekki við neitt öryggi, sem býr við óöryggi, kvíða og vonleysi og það í boði okkar hv. þingmanna og hæstv. ríkisstjórnar.

Ég hef skömm á slíkum vinnubrögðum, virðulegi forseti. Algjöra skömm.

Við tölum um hagsæld. Við tölum um óvissu í ríkisbúskapnum en við tölum ekki um þá 40.000–50.000 Íslendinga sem fá ekki að taka þátt í þeirri hagsæld, sem eru hokrandi á horriminni af gömlum vana. Ég segi bara: Er ekki kominn tími til þess, fyrst við erum svona mörg að stýra þessari skútu og með þennan frábæra hæstv. fjármálaráðherra sem hefur talað vel og skörulega fyrir fjármálaáætlun til næstu fimm ára, að prufa pínulítið að líta inn á við og forgangsraða fjármunum okkar í þágu allra landsmanna en ekki aðeins fárra útvalinna?