Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir að vera fylgin sér og halda á lofti málstað þeirra sem minna mega sín í samfélaginu, halda mér sem ráðherra og ríkisstjórninni við efnið við að bæta kjör þeirra sem hafa úr minnstu að spila. Við viljum mögulega fara ólíkar leiðir til þess. Ég hef á mínum ferli lagt áherslu á að við þurfum að auka verðmætasköpun í landinu til að geta gert betur. Þegar við skoðum upplýsingar um framlög til aldraðra og öryrkja, sem eru hér í sérstökum rammagreinum í þessari fjármálaáætlun, og skoðum önnur gögn eins og t.d. í tekjusögunni, þá er mjög greinilegt að við höfum náð mjög miklum árangri á skömmum tíma.

Við höfum á undanförnum árum séð ráðstöfunartekjur eldri borgara, svo að dæmi sé tekið, vaxa umfram ráðstöfunartekjur annarra hópa í landinu. Fyrir ekki svo mjög mörgum árum voru lægstu taxtar sömuleiðis vel innan við 200.000 kr. og það sama gildir um bætur almannatrygginga eins og lægstu taxtana að mjög mikil breyting hefur orðið á skömmum tíma.

Það sem mig langar að bera upp við hv. þingmann þegar hún kallar eftir því að við gerum meira og betur: Hvaða viðmið eru það sem við ættum að horfa til? Er hv. þingmaður t.d. með neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins til viðmiðunar? Eða hvernig eigum við að kostnaðarmeta hugmyndir hv. þingmanns til að ganga lengra? (Forseti hringir.) Í þessari áætlun er gert ráð fyrir stórauknum framlögum, t.d. inn í örorkumálin, en ég læt þetta duga í fyrra andsvari.