149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þingmaður segir þá er það nú þannig að ég hef í allnokkurn tíma verið formaður í stjórnmálaflokki og farið í gegnum allmargar kosningar, og ég hef verið þingmaður í 16 ár. Ég hef átt samskipti við ansi marga á mínum ferli, sem gefur mér ágætisinnsýn í stöðu þeirra sem minnst hafa. Ég hef setið ófáa fundi með þeim og hlustað eftir þeirra sjónarmiðum og kynnt mér þessi mál betur en margir, mundi ég segja. En það breytir því ekki, óháð því hversu góðan skilning maður hefur á vandanum, að maður þarf að hafa hugmyndir sem ganga upp til að ráða bót á þeim sama vanda.

Það sem ég var að rekja í mínu fyrra andsvari var árangur síðustu ára sem er ótvíræður, sem er afar mikill. Ég er reyndar stoltur af því að okkur skyldi hafa tekist að gera þetta mikið á ekki fleiri árum. Ég er ekki með því að segja að vandi allra hafi verið leystur. Ég er þvert á móti að segja að við höfum bara náð árangri. Áfram er vandi til staðar sem birtist hjá eldri borgurum sérstaklega í því að margir hafa algerlega ófullnægjandi lífeyrisréttindi þegar þeir koma á eftirlaunaár. Og hjá öryrkjum erum við með vissar fátæktargildrur sem margra ára vinna hefur staðið yfir til að greina og ráða bót á með nýjum reglum, nýju úthlutunarfyrirkomulagi ef ég mætti orða það þannig.

En það sem ég er að reyna að nálgast hér eru einfaldar hugmyndir um það hvað hv. þingmaður sér fyrir sér að við eigum að gera mikið fyrir hvern og einn og hvaðan fjármunirnir til þess eigi að koma, hversu mikið vanti upp á að ríkið sé að ráðstafa í þessa málaflokka.