149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Hvað vantar upp á? Það vantar upp á að útrýma fátækt og hætta að skattleggja hana hvað sem það kostar. Rétt áður en ég datt inn á þing var ég að fá útborgað sem öryrki 218.000 kr. á mánuði. Ég hafði þurft að búa við það, þá hafði það hækkað ansi ríflega, um ansi langan tíma og með börn á framfærslu. Með fullri virðingu fyrir 16 ára þingreynslu hæstv. ráðherra og öllum þeim sögum og öðru slíku sem hann hefur þurft að hlusta á, þá er tvennt ólíkt að horfast í augu við einhvern sem segir manni sorgarsöguna eða standa í henni miðri sjálfur og hafa upplifað hana á eigin skinni. Það er algerlega hafsjór þar á milli. Og ef hæstv. ráðherra væri virkilega tilbúinn til að taka einföldustu staðreyndum. Talað hefur verið um gríðarlegan vöxt í útgjöldum ríkissjóðs hvað varðar almannatryggingakerfið og sérstaklega hvað varðar fjölgun öryrkja. Ég er margbúin að benda á einföldustu lausnina til að athuga það hverjir í raun treysta sér til þess að fara út að vinna, lofa þeim að greiða skatt af sinni vinnu, reyna að búa til störf fyrir þau, ekki endilega að vera að búa til eitthvað sem heitir starfsgetumat sem fælir þau frá vegna þess að þau eru orðin svo brennd. Öryrkjar eru orðnir brenndir af því hvernig þetta kerfi er búið að fíflast með þau og leika þau grátt í gegnum tíðina.

Af hverju ekki að fara leið Svía og fleiri sem hafa einfaldlega skilað af sér þannig að hver einasti einstaklingur sem fór út að vinna greiði skatta í ríkissjóð þrátt fyrir að hann fái áfram greitt úr almannatryggingakerfinu? Hann hefur tveggja til þriggja ára aðlögunartíma eftir að hann er alveg kominn út á vinnumarkaðinn. Það voru yfir 33% slíkra einstaklinga sem skiluðu sér ekki aftur inn á bótakerfið. Ég meina, er það ekki þess virði? Þurfum við að sitja í áraraðir hér og velta vöngum yfir einföldustu hlutum bara til þess að gera þá flókna? Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að stíga út fyrir rammann, því að ég tel að ef einhver hefur dug til að gera það sé það hann.