149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir mjög kjarnyrta og kraftmikla ræðu og hlustaði ég með athygli á hvert orð. Hv. þingmaður situr í hv. fjárlaganefnd. Það er mikil vinna sem bíður okkar. Ég vil byrja á því að hvetja hv. þingmann til þess að nýta tímann vel með okkur í nefndinni og kalla eftir öllum upplýsingum. Það er margt í ræðu hv. þingmanns sem ég væri alveg tilbúinn til að koma inn á.

Ég ætla að byrja á því að tala um það sem hv. þingmaður kemur inn á, fátækt. Við þurfum ekkert að skattyrðast um það, ég og hv. þingmaður. Félagslegt öryggi er eitthvað sem við stefnum öll að að búa öllum okkar þegnum. Það hlýtur hver einn og einasti hv. þingmaður að vilja vinna að því. Ef við setjum þetta í samhengi við forgangsröðun fjármuna, og það er okkar verkefni í þessu máli í opinberum fjármálum og áætluninni sem við verðum að horfa til, þá horfumst við í augu við þá stöðu að 6 kr. af hverjum 10 kr., 60 kr. af hverjum 100, sem koma inn fara í heilbrigðismál, félags- og velferðar- og tryggingamál og húsnæðismál. Þarna liggur meginþunginn. Við viljum að þessir peningar skili sér til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Þetta mun að einhverju marki vaxa í hlutfalli ef við náum ekki utan um þetta. Það er verkefnið okkar, sameiginlega verkefnið okkar.

Ég vil nota þennan fyrri hluta hér í andsvari til að hvetja hv. þingmann til dáða. Auðvitað erum við kannski ekkert alveg sammála um allar leiðir, en við erum sammála um markmiðin.