149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, það verður okkar verkefni í hv. fjárlaganefnd að fara gaumgæfilega yfir alla málaflokka. Ég vil, af því að ég endaði mitt fyrra andsvar á því að segja að við værum sammála um markmiðin, segja að hér á enginn að þurfa að búa við fátækt og við eigum að stefna að því að allir búi við félagslegt öryggi. Við erum öll að reyna að keppa að því og að nýta þá fjármuni sem við höfum.

Nú er það þannig að við erum með verðmætasköpun hér á hverju ári. Þriðjungurinn af þeirri verðmætasköpun er sirka umfang fjárlaga á hverju ári. Þá er það alltaf spurning: Hvernig getum við nýtt þennan þriðjung af verðmætasköpuninni? Við erum með atvinnulífið og við erum með heimilin og svo erum við að innheimta skatta til að standa straum af þjónustu til að bæta lífskjörin, eins og ég nefndi áðan, 6 af hverjum 10 kr. Þetta er verkefnið okkar fram undan, hvernig við nýtum þessa fjármuni. Svigrúmið mun ekkert aukast mikið til eða frá. Við þurfum alltaf að horfa á verðmætasköpun á hverju ári.

Hv. þingmaður kom inn á krónu á móti krónu skerðingu. Við erum öll sammála um að það er vont kerfi. Pólitíkin hefur viljað breyta þessu kerfi í mörg ár, en við þurfum samt sem áður að horfa á þetta í þessu samhengi. Um leið og við segjum að það sé enginn ofsæll af lægstu kjörunum verðum við líka að vera í færum til þess að leiðrétta þau. Engin ríkisstjórn hefur í langan tíma sett eins mikla fjármuni og þessi ríkisstjórn hefur gert, 4 milljarða, til að byrja að vinda ofan af þessu kerfi. Hvort sem starfsgetumatið er að trufla það eða eitthvað annað eigum við sem fyrst að finna lausn á því.