149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:54]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hélt að það hefði verið eitthvað í upphafsorðunum sem stuðaði hann af því að hann bað svo snemma um að veita mér andsvar. Ég er einn af þeim þremur eða fjórum þingmönnum sem enn sitja í hv. fjárlaganefnd sem tóku þátt í undirbúningi þessara laga. Við fórum í gegnum þetta sameiginlega í stjórn og stjórnarandstöðu og síðan hafa orðið hlutverkaskipti. Við ræddum talsvert mikið um þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til þess að endurskoða stefnuna. Það fyrsta eru stjórnarskipti en þau skilyrði eru ekki uppfyllt núna og verða ekki. Í öðru lagi eru það meiri háttar áföll og við ræddum mjög mikið um skilgreiningar á meiri háttar áföllum og hversu mikill samdráttur þyrfti að vera í efnahagslífinu eða hvort hagvöxtur þyrfti að hverfa. Það var sjónarmið sem við ræddum talsvert mikið um, ef sú staða væri uppi hvort endurskoða mætti stefnuna. Það sem ég var að reyna að taka fram í ræðu minni er einfaldlega það sjónarmið að á endanum er það þingið sem ræður þessari niðurstöðu, þingið sem ræður hvaða markmiðum eigi að ná með afgreiðslu fjármálaáætlunar.