149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:04]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og fyrir að fara í umræðu um þann þátt fjármálaáætlunar sem ég sleppti svolítið í ræðu minni af því að ég hafði ekki tíma til að fara yfir samgöngumálin. Hvers vegna er þetta ekki í fjármálaáætlun? Ég segi að það sé eðlilega ekki í samgöngukafla fjármálaáætlunar vegna þess að sú umræða hefur raunverulega ekki verið tæmd. Við höfum ekki heildarmynd af verkefninu. Við höfum ekki náð að tengja saman þá þræði sem ég segi að þurfi að tengja, endurskoðun skatta á umferð, eldsneytisskatta o.s.frv. og síðan hvernig það spilar saman við veggjöld. Hv. þingmaður er sjálfsagt að spyrja einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem er hvað jákvæðastur fyrir notendagjöldum á vegum. Ég skal alveg kannast við það að vera mikill stuðningsmaður þeirra fjármögnunar í samgönguframkvæmdum, enda er það þannig t.d. í heimasveit minni eða kjördæmi (Forseti hringir.) að til að mynda Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi benda á fjármögnun með þessum hætti sem leið til að flýta uppbyggingu stofnleiða.