149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:09]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann endaði hana á því að spyrja: Er fjármálaáætlun ekki áfellisdómur yfir landbúnaðinum? Nei, það er hún ekki. Í texta þeim sem hv. þingmaður vísar til er farið yfir það hverjar forsendur þeirra talna sem eru í fjármálaáætlun eru. Þetta eru umsamdar lækkanir sem um er að ræða.

Það lýsir hins vegar ekki skoðun minni á því hvernig starfsumhverfi landbúnaðarins er að öðru leyti, við þyrftum miklu stærri og dýpri umræðu um það. Starfsumhverfi íslensks landbúnaðar byggir á tveimur meginpóstum. Það er í fyrsta lagi búvörusamningarnir, sem hér eru til umfjöllunar og fjármunir til þeirra, og hins vegar sú tollvernd sem hann býr við. Báðir póstarnir hafa rýrnað á undanförnum árum sem kemur niður á starfskjörum íslensks landbúnaðar. Það er umræða sem vert er að taka, en í þessari fjármálaáætlun er hins vegar verið að lýsa þeim samningum og þeim fjárhæðum sem um þá gilda og ekki gengið á bak orða sinna með það.