149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég geri mér grein fyrir því að þarna eru ákvæði um lækkun í búvörusamningunum en ég bendi á að það á réttilega að taka þá upp og væntanlega verða gerðar kröfur um að lagt verði í mótvægisaðgerðir og þær þá fjármagnaðar. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur talað fyrir mótvægisaðgerðum en ég verð því miður að segja að ég get ekki séð þetta öðruvísi en þannig að það sé meira í orði en á borði.

Við sjáum að þessi tvö stóru mál, þ.e. tollasamningur við Evrópusambandið og hið svokallaða hráakjötsmál, munu hafa veruleg áhrif á starfsskilyrði landbúnaðarins og á íslenska búvöruframleiðslu. Það er alveg ljóst að því verður að mæta með mótvægisaðgerðum, en það verður að fjármagna þær.

Er ekki fullkomlega eðlilegt, hv. þingmaður, að þess sé getið í áætluninni hvernig eigi að koma til móts við landbúnaðinn í þeirri miklu sókn sem kemur nú frá Evrópusambandinu og því regluverki sem því fylgir gagnvart honum?