149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Hvað sem líður nýjustu hagspá er ekki hægt að líta fram hjá því að sú spá er ekki í samræmi við horfurnar eins og þær blasa við núna. Þess vegna hljótum við þingmenn að líta til raunveruleikans þegar við veltum fyrir okkur þeim áformum eða þeirri sýn sem ríkisstjórnin birtir í þessari fjármálaáætlun.

Í umræðum fram að þessu hefur mér ekki þótt fulltrúar meiri hlutans bregðast við slíkum athugasemdum með fullnægjandi hætti, eingöngu hjakkað í sama farinu með það að þeir ætli að tala út frá hagspá sem fær ekki lengur staðist.

Um leið er gert ráð fyrir talsverðri aukningu útgjalda á ákveðnum sviðum án þess þó að ráðist sé í sparnað annars staðar þar sem hugsanlega og að öllum líkindum væri hægt að ná fram sparnaði til að vinna upp á móti auknum útgjöldum annars staðar.

Ég er í rauninni að tala um báknið svokallaða sem þessi ríkisstjórn hefur jafnt og þétt haldið áfram að stækka og ætlar að gera áfram samkvæmt fjármálaáætlun. Það birtist ekki hvað síst í ráðuneyti hæstv. forsætisráðherra þar sem aukningin hefur verið gígantísk. Í þarsíðustu fjárlögum var gert ráð fyrir 50% aukningu framlaga til ráðuneytisins. Það hlýtur að vera einsdæmi, þrátt fyrir að þar hafi að vísu komið við sögu, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi, hlutir á borð við hönnun Stjórnarráðsbyggingar, sem er sem betur fer ekki lengra á veg komin en raun ber vitni. Engu að síður er gert ráð fyrir verulegri aukningu, um þriðjungsaukningu, til forsætisráðuneytisins frá því sem var árið 2017.