149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar framsögu og fyrir að vera með okkur hér í kvöld. Það er nú ekki mjög mikið sem liggur mér á hjarta umfram það sem hefur komið fram, nema mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort henni finnist eðlileg og sanngjörn forgangsröðun í ríkisbúskapnum. Þá er ég sérstaklega að tala um, sem mér hefur orðið tíðrætt um, 7 milljarða kr. lækkun á bankaskatti. Við erum að lækka bankaskattinn um 63% þrátt fyrir þá óvissu sem ríkir í búskapnum, bæði hvað varðar loðnubrestinn, ferðamálin, svo að ekki sé talað um kjaramálin fram undan, þrátt fyrir að við eigum svona stöndugan varasjóð, eins og einnig hefur verið mikið rætt.

Ég spyr, af því ég get ekki skilið það, ekki bara um bankaskattinn upp á 7 milljarða heldur um lækkun veiðigjalda upp á 4,3 milljarða, sem sérstaklega nýtast stórútgerðinni og þeim sem eru stöndugastir í þeirri starfsgrein. Við erum að tala um 11,3 milljarða.

Hæstv. forsætisráðherra: Hefðum við ekki getað nýtt þá fjármuni í þágu þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu í stað þess að lækka álögurnar á þá sem eru hvað stöndugastir?