149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:23]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Þrátt fyrir að þessi lækkun á bankaskattinum sé ekki komin til framkvæmda er gert ráð fyrir henni í fjárlögum, ef ég þekki það rétt. Ég vildi gjarnan fá að vita hvort hæstv. forsætisráðherra þyki forgangsröðunin rétt í nákvæmlega þessu máli, þannig að við getum þá séð, þegar það kemur til kasta þingsins, hvernig við myndum standa að því og hvort við munum þá gera það sameiginlega, að reyna að skoða þetta í því ljósi að við þyrftum að nýta þessa fjármuni betur í ljósi þess að bankarnir standa svo sannarlega ekki höllum fæti. Þeir eru að moka út arði og gengur bara mjög vel, sem er ágætt.

Skammtímaúrræði, segir forsætisráðherra. Mig langar að minna lauslega á það skammtímaúrræði sem kom fyrir 35 eða 40 árum þegar svokallað olíugjald var lagt á íslenska sjómenn. Sá skattur og það olíugjald er enn við lýði.