149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Fyrir ári síðan fengum við að líta fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og vorum við sem tölum fyrir auknum jöfnuði í landinu beðin um að taka tillit til þess að þá var ríkisstjórnin, undir forystu Vinstri grænna, rétt lögð af stað. Nú erum við með aðra fjármálaáætlun sömu ríkisstjórnar og þá er ekki hægt að biðja jafnaðarmenn um að sýna Vinstri grænum tillitssemi því að fjöldi hópa bíður enn eftir réttlætinu.

Það er því með ákveðnum trega sem ég kem upp í andsvör við hæstv. forsætisráðherra og formann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sem áður fyrr taldist meðal flokka sem töluðu fyrir auknum jöfnuði, töluðu máli aldraðra og öryrkja, töluðu fyrir bættum kjörum kvennastétta. En fjármálaáætlun ríkisstjórnar undir forystu Vinstri grænna sýnir þjóðarbú í spennitreyju sem mun bitna harkalega á nákvæmlega þeim hópum, ekki síst þeim sem þurfa á þjónustu sveitarfélaga að halda vegna skerðingar á framlagi ríkis til sveitarfélaga.

Hæstv. forsætisráðherra. Ég hef áhyggjur af fólkinu í landinu vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að breytingar á hagvexti þýði einfaldlega niðurskurð á útgjöldum. Ég hef áhyggjur af þeim sem beinlínis búa við fátæktarmörk. Blikur eru á lofti en svo virðist sem samstarfsmenn hæstv. forsætisráðherra geti ekki hugsað sér að láta þá efnameiri taka meiri þátt í samneyslunni.

Því vil ég spyrja: Hefur hæstv. forsætisráðherra engar áhyggjur af þessum hópum? Af hverju þarf að taka af þeim sem ekkert eiga í stað þess að sækja þangað sem mögulegt er?