149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í umræðunni í dag sagði hæstv. fjármálaráðherra að til að auka tekjur og koma bótum til öryrkja og eldri borgara þyrfti að auka verðmætasköpun, fá meiri hagvöxt. Ég spyr mig hversu mikinn hagvöxt og hversu mikið þurfi að auka verðmætasköpunina. Maður hefur aldrei heyrt þetta sagt þegar verið er að hækka þá hæst launuðu, þingmenn, ráðherra, bankastjóra, um tugprósentahækkanir. Maður hefur aldrei heyrt að það sé ekki hægt vegna þess að auka þurfi verðmætasköpun eða hafa betri hagvöxt.

Það er annað sem er svolítið undarlegt í þessu, að þessi sami hópur fékk leiðréttingu langt aftur í tímann, marga mánuði ef ekki ár, og það hafa allir fengið leiðréttingar. En hvergi er að sjá í þessari fjármálaáætlun neitt um að leiðrétta eigi þá einu sem eftir eru, aldraða og öryrkja. Það er ekki stafur um að það eigi að leiðrétta þá. Þarna vantar upp á 20–30% að lágmarki, fyrir eldri borgara og öryrkja, og það er ekki stafur um að þeir eigi að fá afturvirkt eins og allir aðrir hafa fengið.

Mér finnst með ólíkindum að þessi eina stétt sem verst stendur skuli hafa verið gersamlega skilin eftir og eina skýringin á því sé sú að við höfum ekki haft nógu mikinn hagvöxt og ekki aukið verðmætasköpun nógu mikið. Samt er sagt að aldrei í sögunni hafi hagvöxtur verið eins mikill. Ég vil spyrja ráðherra hvort hún sé sammála þessu. Hvað þarf verðmætasköpunin að vera mikil og hve mikill þarf hagvöxtur að vera til að hægt sé að leiðrétta kjör eldri borgara og öryrkja, og ekki bara leiðrétta þau um þau 20–30% sem þau eiga inni heldur líka afturvirkt?