149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir hans innlegg í þessa umræðu. Það er tvennt sem mig langar til að koma inn á. Í fyrsta lagi kemur núna í ljós fyrirhuguð fjárveiting til ársins 2024, sem var, getum við sagt, mun rýmri á fyrsta tímabili langtímaáætlunarinnar sem lögð var fram í haust en hér birtist. Ég hafði töluverðar áhyggjur af því þegar þetta var lagt fram að samgönguáætlunin væri afturþung hvað fjármögnun varðar. Nú sjáum við fyrsta árið af langtímaáætluninni birtast og þá kemur í ljós, og er á þeim nótum sem mátti reikna með, að það vantar töluvert mikið upp á það markmið að 1,5% af vergri landsframleiðslu verði varið til nýframkvæmda á vegakerfinu.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér þetta fyrir sér þróast og þá í samhengi við þá fjármögnunarvinnu sem hann kom inn á að væri í gangi í ráðuneytinu í tengslum við afstöðu þingsins þegar fimm ára samgönguáætlun, sem ég kalla, var samþykkt í febrúar sl. Ég myndi vilja fá þetta fram.

Jafnframt langar mig til að óska eftir því að hæstv. ráðherra komi í stuttu máli inn á hvernig hann sér fyrir sér borgarlínuverkefnið þróast og fjárveitingar til þess. Telur hann að þær séu líklegar að einhverju marki, öðruvísi en að það upplegg sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði til muni raungerast?