149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir að vera með okkur í kvöld og fyrir hans ágætu framsögu. Þetta er metnaðarfull aðgerðaáætlun hvað varðar uppbyggingu á gatnakerfinu okkar, það er óhætt að segja það. Ríflega 40 milljarðar kr. sem við ætlum að nýta til að byggja upp samgöngukerfi og ekki er vanþörf á, það hefur sannarlega legið í láginni í áraraðir og þess vegna er það eins illa statt og raun ber vitni.

Það er eitt sem er búið að valda mér svolitlu angri þegar ég hugsa um áður fram komnar yfirlýsingar og þankagang í þá átt að hér verði lagðir á vegaskattar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort sú hugsun hafi farið eitthvað lengra, hvort hafi verið tekið tillit til þess eins og ég heyrði hann segja hér, tveim dögum eftir að ég kom í þennan ræðustól og talaði um væntanlegar arðgreiðslur sem lýst var yfir að við myndum eiga von á frá Landsvirkjun, um 110 milljarða á árunum 2020–2026. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hugsar þetta, hvernig hann sjái þetta fyrir sér, hvort það sé búið að ýta væntanlegum vegsköttum út af borðinu eða hvort þeir eru enn á döfinni.