149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:06]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Upptaktur í umræðu um fjármálaáætlun að þessu sinni er að við erum að sigla inn í kólnandi hagkerfi. Framlögð fjármálaáætlun kveður að aðhaldi og aga í opinberum fjármálum sem er merki um ábyrga fjármálastjórnun til langs tíma. Þegar við stöndum á þeim krossgötum að þurfa að beita aðhaldi er gott að horfa til nýrra atvinnugreina sem gætu skilað miklu inn í þjóðarbúið. Þá vil ég nefna fiskeldið.

Í atvinnuveganefnd er unnið að stefnumótun í fiskeldi og skiptir miklu máli að vanda til þess verkefnis til að vel takist til framtíðar. Talsverðir möguleikar til atvinnuuppbyggingar eru í fiskeldi sem þarf að byggjast á markmiðum um sjálfbærni og ábyrgð. Í framlagðri fjármálaáætlun er ánægjulegt að það sé athugað að huga þurfi að rannsóknum og þróun. Huga þarf jafnframt að uppbyggingu stjórnsýslu og vöktunar eftir því sem greinin vex.

Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem við ætlum að byggja undir atvinnugreinina til framtíðar sem vistvæna matvælaframleiðslu. Við stöndum frammi fyrir auknum kröfum um vernd vistkerfisins, heilnæmi afurða, fæðu- og matvælaöryggis, kröfum um heilbrigði fiska í eldi, heilbrigðiskröfum, kröfu um lágmörkun sóunar í virðiskeðjunni og áherslum markaðsaðila á vottun á sjálfbærum veiðum og eldi.

Ef okkur tekst að byggja upp sterkan ramma utan um laxeldið er þetta gríðarlega mikilvæg viðbót og má gera ráð fyrir að útflutningsverðmæti árið 2020, miðað við 40.000 tonna framleiðslu, gæti numið rúmlega 30 milljörðum kr. Það munar um minna. Þarna erum við komin með útflutningsgrein sem gæti vegið þungt inn í viðkvæmt hagkerfi hér á landi sem er viðkvæmt fyrir sveiflum í atvinnugreinum. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér þjóðhagsleg áhrif af fiskeldi til framtíðar og hvernig þau komi til með að skila sér inn í málaflokkinn.