149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Já, ég hef heyrt það líka að útgerðirnar verði sjálfar að axla þá byrði að takast á við þennan aflabrest. Ég er nú meira forvitin um hvort verið sé að skoða í ráðuneytinu möguleika á einhverju öðru, þá kannski gulldeplu og laxsíld sem enginn kvóti er á og hægt að sækja í. Eða hefur ráðherrann komið auga á eitthvað annað en þessa stofna sem við sækjum hvað grimmast í og eru, eins og ráðherrann bendir á, í toppnýtingu. Þá er bara spurningin: Er það ekkert annað sem við getum gert? Lumum við ekki á einhverju þó það sé ekki Eyjafjallajökull eða Justin Bieber eða eitthvað? En lumum við ekki á einhverju sem við höfum ekki komið auga á og gætum hugsanlega dregið fram úr erminni?