149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024. Sem heilbrigðisráðherra beini ég sjónum mínum að málaflokki heilbrigðisþjónustu, forvarna og lýðheilsumála. Ein af megináherslum ríkisstjórnarinnar er að efla heilbrigðisþjónustuna og heilbrigðiskerfið. Til þess er nauðsynlegt að Alþingi og landsmenn allir sameinist í góðri sátt um skýra stefnu í heilbrigðismálum.

Í janúar sl. lagði ég fram á Alþingi þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Þar er stefnan að landsmenn búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu með jafnt aðgengi, öryggi, gæði og jöfnuð að leiðarljósi. Framtíðarsýnin er að íslensk heilbrigðisþjónusta sé með því besta sem þekkist og að lýðheilsustarf og forvarnir séu í öndvegi. Í stefnunni er lögð áhersla á sjö grunnstoðir sem heilbrigðiskerfið verður að byggjast á og gildir um alla heilbrigðisþjónustu sem veitt er.

Þessar grunnstoðir lúta að stjórnun og forystu í heilbrigðiskerfinu, mikilvægi þess að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað, eflingu og uppbyggingu mannauðs, markvissum og hagkvæmum kaupum á heilbrigðisþjónustu, valdeflingu notenda, gæðakröfum til þjónustuveitenda og framtíðarsýn um menntun, vísindi og nýsköpun í heilbrigðiskerfinu.

Áherslan á eflingu heilbrigðisþjónustunnar kemur vel í ljós þegar litið er til þeirrar fjármálaáætlunar sem hér er til umræðu. Þannig er gert ráð fyrir að árleg framlög til heilbrigðismála verði um 267 milljarðar í lok tímabilsins eða um 28 milljörðum kr. hærri árið 2024 en þau eru samkvæmt fjárlögum ársins í ár. Þetta er hækkun um ríflega 11% að raunvirði. Áfram verður unnið að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu og er gert ráð fyrir því að veita uppsafnað ríflega 9 milljarða kr. á næstu fimm árum til verkefna því tengdu. Er markmið okkar að nálgast það sem gerist að jafnaði á Norðurlöndum í greiðsluþátttöku sjúklinga.

Heilsugæslan verður efld enn frekar sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu, m.a. með aðkomu fleiri fagstétta að þjónustunni og aukinni teymisvinnu. Þar vegur þungt efling geðheilbrigðisþjónustunnar, m.a. aukin sálfræðiþjónusta og styrking geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum landsins í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum.

Fullnægjandi mönnun er viðvarandi áskorun og um það er fjallað í heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Á tímabilinu verður ráðist í gerð mannaflaspár fyrir heilbrigðiskerfið og mótuð markmið og leiðir til að skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Með tilkomu þjóðarsjóðs árin 2020–2022 verður unnt að byggja 133 hjúkrunarrými til viðbótar við þau 790 sem þegar eru á framkvæmdaáætlun og einnig verður dagdvalarrýmum fjölgað. Horft er til þess að efla heilbrigðisþjónustu við aldraða almennt. Uppbyggingin felur í sér meira svigrúm til að auka sveigjanleika innan núverandi kerfis svo bæta megi þjónustuna og mæta sem best þörfum hvers og eins á hverjum tíma. Skipulögð heilsuvernd aldraðra verður innleidd í öllum heilbrigðisumdæmum og sérstök áhersla er lögð á að hvetja til og styðja við heilsueflingu aldraðra.

Stofnkostnaður, m.a. vegna byggingarframkvæmda, verður 100 milljarðar á tímabilinu. Uppbygging meðferðarkjarna Landspítalans og bygging rannsóknarhúss heldur áfram af fullum krafti. Á síðari hluta fjármálaáætlunar verður ráðist í byggingu nýs legudeildarhúsnæðis við Sjúkrahúsið á Akureyri.

Í lok síðasta árs staðfesti ég áætlun embættis landlæknis um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. Áætlunin er einn af hornsteinum heilbrigðisstefnunnar og lýtur að öryggi, aðgengi og skilvirkni heilbrigðisþjónustu í landinu.

Samþykkt hefur verið krabbameinsáætlun til ársins 2030 og þar er m.a. lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmgreiningu krabbameina. Fagráð um skimanir skilaði mér nýlega tillögum um framtíðarfyrirkomulag skimunar á landsvísu og skipuð verður verkefnisstjórn til að útfæra og undirbúa innleiðingu á tillögum ráðsins.

Í samræmi við lyfjastefnu verður markvisst unnið að því að bæta aðgang almennings að nauðsynlegum lyfjum, bregðast við lyfjaskorti og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum.

Stefnt er að því að bæta aðgengi kvenna í viðkvæmri stöðu að hormónatengdum getnaðarvörnum. Bólusetning gegn hlaupabólu hefst á næsta ári. Auknu fé verður varið til að efla forvarnir í þágu bættrar lýðheilsu. Fjármunir verða settir í aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og til að sporna við fíkniefnanotkun. Uppbygging og þróun rafrænnar skráningar, rafrænna samskipta og rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu heldur áfram. Rafræn samskipti við sjúklinga verða bætt og aukinn kraftur settur í að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir það helsta sem snýr að heilbrigðiskerfinu í þeirri fjármálaáætlun sem hér er til umræðu. Við stöndum frammi fyrir fjölda áskorana í heilbrigðisþjónustunni. Til að mæta þeim með markvissum, skilvirkum og hagkvæmum hætti, þar sem hagsmunir sjúklinga eru í fyrirrúmi, þarf að byggja á skýrri sýn. Ég er sannfærð um að ný heilbrigðisstefna verður okkur mikilvægur vegvísir til næstu ára og geri okkur kleift að efla heilbrigðisþjónustuna í landinu öllu, bæta gæði hennar og auka jöfnuð meðal notenda á skilvirkan og hagkvæman hátt.