149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ef ég reyni að bregðast við þeim spurningum hennar eða athugasemdum sem komu fram er það fyrst varðandi fjölgun starfsstétta í heilsugæslunni að segja að það rímar ágætlega við áherslur mínar og ráðuneytisins að bæta við fleiri stéttum en sálfræðingum, til að mynda félagsráðgjöfum, eins og við hv. þingmaður höfum raunar áður rætt í þingsal.

Varðandi samninga við sérgreinalækna standa þær samningaviðræður yfir og það er markmið mitt að ná botni og niðurstöðu í þá samninga.

Hv. þingmaður hafði áhyggjur af uppbyggingu hjúkrunarrýma en eins og kom fram í framsögu minni erum við að auka umtalsvert við áætlunina sem gerði ráð fyrir 790 nýjum rýmum. Við erum að auka um 133 til viðbótar.

Vegna þess að hv. þingmaður hefur sérstakar áhyggjur af því að mikill þungi sé á Landspítalanum við Hringbraut og uppbyggingu þar er það svo að við aukum líka umtalsvert á tímabilinu í rekstur á heilbrigðiskerfinu öllu. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að það er dýrt að byggja nýjan spítala og við viljum gera það vel. Ég vil einnig halda því til haga að nýtt háskólasjúkrahús við Hringbraut er spítali allra landsmanna. Það er móðursjúkrahús íslensku heilbrigðisþjónustunnar og samkvæmt heilbrigðisstefnu og köflum í fjárlagavinnu er Landspítalinn – háskólasjúkrahús sérhæft sjúkrahús með sérhæfða sjúkrahúsþjónustu sem þjónar öllum landsmönnum, rétt eins og sjúkrahúsið á Akureyri gerir að hluta. Með hliðsjón af því að leggjum við áherslu á að setja inn í fjármálaáætlunina áform um að bæta húsakostinn á Akureyri. Þar er gríðarlega mikilvægri þjónustu sinnt, bæði til að styðja við heilbrigðisstofnanir á svæðinu en ekki síður til að sinna þriðja stigs þjónustu fyrir norðan og austan.