149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:40]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þetta góða svar sem tók á mörgum þáttum. Ég fagna því ef litið verður til fleiri fagstétta en sálfræðinga þar sem augu mín hafa opnast fyrir því að við eigum ekki að leggja áherslu á eina stétt umfram aðra þegar fleiri stéttir geta gefið okkur jafn góða meðferð, sérstaklega gagnreyndar meðferðir.

Ég er mjög ánægð að heyra að aukið verði við húsakost á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég vil enn og aftur benda á tvíþætt hlutverk Landspítala, eins og annarra sjúkrahúsa, en hann er líka svokallað héraðssjúkrahús sem á að sinna þeim 200.000 íbúum sem búa hér. Mér finnst erfitt að gera mér grein fyrir því hvernig þetta á allt saman að rúmast á sama blettinum öðruvísi en að annað raski þjónustu hins, ef ég get útskýrt það svoleiðis.