149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki nóg með að þarna sé um gríðarlega stórar og miklar byggingarframkvæmdir að ræða heldur er þetta sennilega flóknasta byggingarframkvæmd Íslandssögunnar hvað varðar tæknilegar útfærslur. Þetta er ekki bara kassi heldur þarf að fara þarna fram hátækniheilbrigðisþjónusta, rannsóknir og menntun heilbrigðisstétta o.s.frv.

Það kemur fram í vangaveltum hv. þingmanns að þarna sé líka um að ræða héraðssjúkrahús fyrir suðvesturhornið og það er sannarlega svo með þeim aðlægu stofnunum sem eru bæði á Akranesi, Suðurlandi og Suðurnesjum. En það skiptir miklu máli, og það kemur fram í heilbrigðisstefnu, að við aðgreinum skýrt hver gerir hvað í kerfinu. Hvar erum við með heilsugæsluþjónustu? Hvar erum við með annars stigs þjónustu og hvar erum við með þriðja stigs þjónustu sem er sérhæfðu sjúkrahúsin?

Ég hef trú á að með því að skýra þetta betur og gera þann greinarmun skýrari komum við okkur yfir þann punkt að vera með tvíverknað á einum stað og óhóflega bið eftir eðlilegri þjónustu á öðrum stað.