149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:43]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir. Mér finnst hún að mörgu leyti vera kletturinn í hafi þessarar ríkisstjórnar og er sammála henni um margt. Það er t.d. hægt að hrósa henni fyrir drög að heilbrigðisstefnu sem hún vék að áðan. Þá hefur hún boðað stórátak í uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma, yfir 900 á tímabilinu. Ég sé reyndar ekki að þau séu algjörlega fullfjármögnuð.

Hér var áðan talað mikið um byggingar. Það er eitt að tala um hús og allt annað að tala um rekstur húss. Þannig kostar t.d. bygging sjúkrahúss u.þ.b. það sama og rekstur sjúkrahúss í tvö ár. Það vantar nefnilega mikinn pening inn í rekstur hjúkrunarheimila. Nú þegar vantar líklega 3 milljarða árlega inn í rekstrargrunninn og eru þá ekki taldir með nýir kostnaðarliðir svo sem íþyngjandi hlutir vegna nýrra persónuverndarlaga, jafnlaunavottunar og eflaust ýmislegt fleira. Sveitarfélögin bera um þriðjung þessa reksturs og þurfa þess vegna að taka 1 milljarð kr. árlega út úr sínum sjóðum, sem hugsaðir eru til þjónustu við aðra íbúa, til að bæta upp þennan halla. Þetta getur varla talist ásættanlegt. Það er enginn rammasamningur í gildi og aðilar hafa bara nánast ekki talast við í eitt ár.

Spurningin er þá: Telur ráðherra að það verði einhver ráð til að styrkja þennan rekstrargrundvöll eða er hún á því að það verði að búa til nýjan samning sem gerir ráð fyrir skerðingu á þjónustu við allt þetta blessaða gamla fólk okkar?