149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Mig langar í fyrsta lagi að dvelja við athugasemd hv. þingmanns varðandi það að heilbrigðisþjónustan til lengri framtíðar snúist ekki bara um að byggja hús. Ég er svo innilega sammála því. Við verðum að gæta okkar á því að stoppa ekki þar.

Á bls. 365 í þessu góða plaggi sem við erum með hér til umræðu kemur fram, með leyfi forseta — ég þarf ekki einu sinni að biðja forseta því að ég ætla að umorða þetta — að það þurfi ekki bara að huga að byggingunum við Hringbraut heldur er líka rætt að það þurfi að rýna eldri útreikninga sem lúta að nýtingu húsnæðis og væntu rekstrarhagræði sem leiða muni af uppbyggingunni, eins og talað var um á sínum tíma. Það þurfum við að endurmeta. Auk þess þurfum við líka að skoða eldri byggingar. Þá er ég ekki bara að tala um þær sem eru á Hringbrautarlóðinni heldur þær sem eru annars staðar. Allt tengist þetta heildarsýninni á framtíð háskólasjúkrahússins og Landspítalans. Auk þess þurfum við auðvitað að fjalla um tækjakaup á lóðinni. Af þessum sökum hefur verið stofnaður sérstakur samráðsvettvangur til að ná heildarsýn yfir málið, að við séum ekki bara að tala um bygginguna.

En mig langar sérstaklega líka að dvelja við það sem hv. þingmaður talaði um varðandi rekstrarheimildir hjúkrunarrýma. Við ræddum raunar þetta sama mál hér fyrir ári, ef ég man rétt. Það er rétt ábending hjá hv. þingmanni að það má sjá á ferlinum sem er dreginn upp í kaflanum um hjúkrunarrými að rekstrarheimildir uppfylla ekki í raun og veru þær byggingar sem þar eru. En til þess kemur ekki fyrr en á árinu 2023 og ég vænti þess að við höfum ráðrúm til að tryggja rekstrarheimildirnar í tæka tíð.

Ég hef áhyggjur af því ef ekki nást samningar við rekstraraðila hjúkrunarheimilanna. Sjálf hef ég átt fundi með þeim aðilum og ég vonast til þess að ég geti alla vega sent jákvæð hugskeyti (Forseti hringir.) inn í þær viðræður. En þær standa yfir.