149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að einbeita mér að því að svara hv. þingmanni að þessu sinni. Allt er þetta nú sama heilbrigðiskerfið. Varðandi rammasamninginn liggur fyrir að það var fundur um hann í þessari viku þannig að þar er eitthvað að hreyfast. Ég vona að það verði til góðs.

Hv. þingmaður talar um heilsueflingu og spyr hvort ekki sé rétt að ræða heimahjúkrun líka. Jú, það er mjög mikilvægt. Við Íslendingar stöndum nágrannaþjóðum okkar langt að baki hvað varðar það hversu mikið fjármagn við veitum til heimahjúkrunar. Við verðum að finna leiðir til að styðja við það að aldraðir búi lengur heima hjá sér, þeir fái þann stuðning, þá heilsueflingu og þá þjónustu heim sem þarf í stað þess að einblína bara á þessu langdýrustu úrræði, sem eru hjúkrunarrýmin. Dýrustu úrræðin eru náttúrlega bráðadeildir Landspítala, þau eru enn þá dýrari fyrir hvern sólarhring.

Þetta er partur af heildarsýninni og það er áherslumál hjá mér á þessu ári; heilbrigðisþjónusta við aldraða í víðum skilningi.