149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:49]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti og hæstv. ráðherra. Ég vil byrja á að þakka fyrir að koma hingað, vel mönnuð, til að hitta okkur og svara fyrirspurnum okkar.

Mig langar að spyrja út í og fara yfir smákafla. Á árinu 2010 lækkuðu framlög til Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja um 30% í kjölfar þess að hætt var að veita fasta skurðstofuþjónustu og sólarhringsvakt skurðstofu var lögð af. Þá voru teknar upp svona viku-aðgerðir, ein vika, einu sinni í mánuði, og þá með deyfingu.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem gerð var, var komist að þeirri niðurstöðu að lengri viðbragðstími sjúkraflugs í kjölfar þess að staðsetning sjúkravéla flyttist frá Vestmannaeyjum yfir til Akureyrar væri í lagi þar sem sólarhringsvakt á skurðstofu væri til staðar á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. Nú er ekki lengur sólarhringsvakt á skurðstofu og viðbragðstíma sjúkraflugs er nú ábótavant. Það er grafalvarlegt og kallar á að koma aftur á sólarhringsvakt skurðstofu, líkt og áður var um áratugaskeið.

Í þessu sambandi spyr ég um hugmyndir um þyrlu til að flýta fyrir sjúkraflugi.

Sameiginleg fagnefnd stofnunarinnar og ráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu að C1-þjónusta ætti að vera við fæðingardeildina í Eyjum, sem þýðir fæðingarþjónusta með aðgang að skurðstofuþjónustu allan sólarhringinn. Sú þjónusta er ekki í boði, þrátt fyrir einróma niðurstöðu þessa hóps. Í honum voru sérfræðingar frá Landspítalanum, Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum og frá heilbrigðisráðuneytinu.

Í Eyjum er nú rekin D-þjónusta, án aðgangs að skurðstofu, og engin sólarhringsþjónusta er fyrir ófrískar konur, sem er óásættanleg staða. Á síðasta ári fæddust í Eyjum 2–3 börn, ef ég man rétt, ég man ekki hvort heldur var. Stöðugildum í sjúkrahúsinu hefur fækkað um sex eftir sameininguna sem er þvert á fyrirheit um að stofnunin yrði efld.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki sé ljóst að starfsemi stofnunarinnar í Eyjum sé ekki í neinu samræmi við það sem fagnefnd ráðuneytisins og stofnunarinnar komust sameiginlega að, hvort óvissa í samgöngum við Eyjar og áhættusækið atvinnulíf í tæplega 5.000 manna samfélagi geti búið við þær aðstæður í heilbrigðismálum (Forseti hringir.) sem hér koma fram og velti því fyrir mér hvort sameining stofnunarinnar við HSU hafi verið mistök.