149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar og fyrir að standa vaktina fyrir sitt kjördæmi í samtölum við mig hér iðulega um heilbrigðismál.

Varðandi síðustu spurninguna í máli hv. þingmanns, sem var svona svolítið niðurstaðan af hans umfjöllun hér, svara ég því afdráttarlaust neitandi. Það voru ekki mistök að stofna til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Við sjáum verulegan ávinning af því um allt land að hafa staðið að þessum heilbrigðisstofnunum.

En hitt er hins vegar algerlega ljóst að það eru sums staðar byrjunarörðugleikar og sums staðar tekur lengri tíma en annars staðar að koma málunum í skikkanlegt horf.

Það er til margs að líta þar. Hv. þingmaður talar hér sérstaklega um Vestmannaeyjar. Við megum ekki gera minni öryggiskröfur til heilbrigðisþjónustu þar en annars staðar. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að öryggi og gæði séu þar í samræmi við það sem best gerist annars staðar.

Það er vandmeðfarið þegar mönnunarmálin eru áskorun. Það verður alltaf vandmeðfarið þegar mönnunarmálin eru áskorun. Þess vegna þurfum við, í Vestmannaeyjum rétt eins og annars staðar í fjarlægum byggðum þessa lands, að horfa í ríkari mæli annars vegar til bættra sjúkraflutninga, eða utanspítalaþjónustu — og hv. þingmaður nefnir hugmyndir um sjúkraþyrlu sem ég hef hlustað mjög vandlega eftir og tel að sé eitthvað sem við eigum að skoða og hugsanlega þróa betur — og hitt er að þróa og efla til mikilla muna hér fjarheilbrigðisþjónustu, þannig að hluti af heilbrigðisþjónustunni sé þannig að hún verði ekki bara bætt með fjarheilbrigðisþjónustu og tæknilausnum heldur sé einhverjum tilvikum, og þá kannski sérstaklega þegar um er að ræða eftirfylgni og því um líkt, hægt að sinna með tæknilausnum.