149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi ágætu svör og leyfi mér að líða ágætlega um stund [Hlátur í þingsal.] og vona að við komumst eitthvað áleiðis.

Mig langaði líka að spyrja hæstv. ráðherra um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar hefur náttúrlega í langan tíma, í mörg ár, verið talað um að þar vanti framlög, að íbúar á Suðurnesjum búi ekki við sama atlæti og sömu framlög og gildi annars staðar í landinu. Þessa umræðu þekkjum við. Í síðustu fjármálaáætlun var sérstakt loforð um þetta.

Mig langar að spyrja: Hvaða skilaboð sendir þessi fjármálaáætlun til íbúa Suðurnesja um að okkar hagur muni vænkast? Við höfum ekki einu sinni haft tækifæri til að tala um húsnæðismál þeirrar stofnunar og hvernig fyrir heilsugæslunni er komið.

Ég velti fyrir mér: Væri ástæða til að skoða útvistun á Heilsugæslunni á Suðurnesjum, samfara einhverjum breytingum á stofnuninni? Ég velti því bara fyrir mér vegna þess að staðan er óásættanleg eins og hún er í dag á svæðinu.