149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að bæta við það sem við vorum að ræða hér áðan varðandi stöðuna í Eyjum og kannski almennt varðandi fjarlægar byggðir: Við verðum auðvitað að halda líka til haga inni í þeirri jöfnu sjúkrahótelinu. Því að það mun breyta mjög miklu varðandi það að geta sótt þjónustu inn á höfuðborgarsvæðið og verið þar með fjölskyldu sinni, mögulega, þegar þannig háttar. Þannig að það snýst líka um að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.

Hv. þingmaður nefnir líka stöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en þar er kominn nýr forstöðumaður sem tók við núna fyrir nokkrum vikum. Ég þekki þessa umræðu mjög vel. Í fjármálaáætlun, eins og hv. þingmaður veit, er hún ekki brotin upp á einstakar heilbrigðisstofnanir. Þannig að það er ekki að sjá í tölunum þar, því að þær eru heildartölur inn á liðinna.

Hins vegar erum við í ráðuneytinu mjög meðvituð um hvað er við að glíma þar með fordæmalausri fjölgun íbúa og sérstaklega miklu álagi vegna ferðaþjónustu. Ég vil líka nefna að við erum að endurskoða greiðslumódelið (Forseti hringir.) fyrir heilsugæsluna og Suðurnesjamenn munu væntanlega njóta góðs af því.