149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:56]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Fram undan er mikil vinna á sviði heilbrigðismála. Fyrir liggur heilbrigðisstefna sem nú er til meðferðar í þinginu og hafin er bygging nýs Landspítala. Nauðsynlegt er að bæta þann skaða sem heilbrigðiskerfið varð fyrir í ráðherratíð Sjálfstæðisflokksins. Nauðsynlegur þáttur í að tryggja heilsu þjóðarinnar til framtíðar er samt að tryggja öflugt forvarnastarf.

Í fjármálaáætlun kemur fram að vísbendingar séu um vaxandi einmanaleika meðal aldraða — sem getur leitt til sjúkdóma. Ég deili áhyggjum af þeim aðstæðum sem aldraðir búa við en velti fyrir mér hvort við þurfum ekki að ráðast markvisst í víðtækari samfélagsbreytingar.

Einmanaleiki herjar ekki bara á aldraða heldur gerir hann það þvert yfir samfélagið. Hann kemur til viðbótar við þá streitu sem virðist vera nýja normið, þar sem fjölskyldur verja of miklum tíma í vinnu í stað þess að hlúa að fjölskyldu sinni. Forgangsröðun samfélagsins er á skjön við sjónarmið um að efla heilsu og vellíðan.

Einnig kemur fram í fjármálaáætlun að bregðast þurfi við aukinni sjúkdómsbyrði vegna langvinnra sjúkdóma og áhættuþáttum vegna lífsstílstengdra sjúkdóma. Fjallað er í nokkru máli um dauðsföll af völdum ósmitnæmra sjúkdóma og mikilvægi þess að takast á við áskoranir í forvörnum og bættri og samfelldari þjónustu í nærumhverfi. En hvergi kemur fram hvernig eigi að bregðast við þessari þróun né við vaxandi einmanaleika eldri kynslóða — eða því tilgangsleysi sem yngri kynslóðir upplifa í vaxandi mæli.

Ég tel þetta allt saman nátengt og langar að vita hvort ráðherra sjái það líka.

Einn þáttur sem gæti tryggt meiri samverustundir fjölskyldu, minnkað streitu og dregið úr sjúkdómabyrði og einmanaleika er stytting vinnuvikunnar. Þetta er mál sem ég veit að á heima hjá félagsmálaráðherra en mun hafa mikil áhrif á málaflokk heilbrigðisráðherra. Sér ráðherra möguleikann á aukningu lífsgæða sem stytting vinnuvikunnar felur í sér og þann ávinning sem þetta gæti haft í för með sér?

Það sem ég er í raun að spyrja um er hvort ráðherra sé að skoða vandamálin heildstætt og leitist við að tækla rót vandans fremur en að einblína einungis á birtingarmyndir eða einkenni vandans. Og ef svo er: Hvernig er fjármunum forgangsraðað? Mér er ómögulegt að sjá það (Forseti hringir.) á fjármálaáætluninni hver forgangsröðunin er. Ég sé bara heildarsummur en það er voða erfitt að sjá hvernig heilbrigðisráðherra hefur hugsað þetta heildstætt.