149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er rétt sem kemur fram í hennar máli að manni er svolítill vandi á höndum þegar maður sér fjármálaáætlunina og ætlar að reyna að sjá stefnu út úr tölunum. Þá hjálpa þessir textar sem hv. þingmaður vísar hér til.

Það sem ég vil segja er það að við erum þarna að leggja í tiltekin verkefni sem eru með töluvert aukinni áherslu á forvarnastarf. Við erum að tala t.d. um geðheilbrigðisteymi. Við erum að tala um heilsueflandi heimsóknir til aldraðra — sem eru þá með peningum. Við erum að tala um að bregðast við langvarandi sjúkdómum með því að efla göngudeildarþjónustu, þ.e. reyna að færa okkur framar í keðjuna, nær fyrsta stigs þjónustunni, og helst auðvitað bara í forvarnir.

Það hljómar eins og tónlist í mínum eyrum að tala um víðtækar samfélagsbreytingar — en ég ætla mér ekki að klára það ein, sko.

Hins vegar hef ég áhyggjur af því sama og hv. þingmaður talar um. Bara gildismatinu, álaginu, löngum vinnudegi. Ég er sammála þingmanninum um að kannski væri það besta forvarnaverkefnið að stytta vinnudaginn og um leið að við gæfum okkur meiri tíma til að vera saman, tala saman, einfaldlega að gera það sem við erum að gera meðan við erum að því en vera ekki að gera fjóra hluti á meðan, eins og við gerumst stundum sek um.

Það er ábending Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til heilbrigðisþjónustu allra landa sem eru þátttakendur í Sameinuðu þjóðunum að beina sjónum meira að þessum langvinnu sjúkdómum, þ.e. að fjölga því fólki sem lifir við langvinna sjúkdóma árum og áratugum saman en tekur þátt í vinnu, að hluta eða öllu leyti. Ég nefni krabbamein, ég nefni sykursýki, ég nefni fleiri og fleiri slíka sjúkdóma sem eru orðnir partur af daglegu lífi. Þetta þarf að komast inn í bætta heilsugæslu og aukna göngudeildarþjónustu (Forseti hringir.) o.s.frv.

Þá áherslu er sannarlega að finna hér í fjármálaáætlun.