149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:01]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. En þá sný ég mér að allt öðru.

Í framlagðri fjármálaáætlun er ítrekað minnst á mikilvægi þess að tryggja aðgengi allra íbúa landsins að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og efnahag, sem er mjög mikilvægt. Oft ber fjarheilbrigðisþjónustu á góma í því samhengi.

Ljóst er af umfjöllun í fjármálaáætlun að ráðherra telur nýtingu fjarheilbrigðistækni við veitingu heilbrigðisþjónustu mikilvægan þátt í að auka aðgengi fólks að þjónustu, enda kemur fram að vinna við umgjörð um fjarheilbrigðisþjónustu sé þegar hafin.

Það er því miður að ein niðurstaða þeirrar vinnu felur í sér vissa aðgangshindrun. Bindandi fyrirmæli landlæknis um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu felur nefnilega í sér óþarflega strangar kröfur um auðkenningu notenda slíkrar þjónustu sem og órökstuddar tæknilegar útfærslur á allri umgjörð hennar.

Það liggur í augum uppi að nauðsynlegt er að endurskoða núverandi kröfur landlæknis með það að leiðarljósi að fyrirhuguð innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu næstkomandi ára falli ekki um sjálfa sig vegna slæmrar útfærslu áðurnefndra atriða.

Ég spyr því: (Forseti hringir.) Telur ráðherra heppilegt að mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfi framtíðarinnar verði óaðgengilegur þeim sem hafa t.d. ekki áhuga á að versla auðkenni af einkahlutafélagi? Telur hæstv. ráðherra að það þurfi að endurskoða þetta?