149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst hv. þingmaður nefnir jöfnun aðgengis að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu, vil ég nefna að það eru mjög mörg verkefni í gangi til þess að bæta þar um betur. Þó nokkur hafa verið nefnd nú þegar.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um öryggiskröfur landlæknisembættisins. Það þarf náttúrlega kannski allra síst að tala um það hér í þessum þingsal að við vitum mjög vel hversu mikilvægt er að gæta vel að því hvaða upplýsingar eru aðgengilegar og hvaða upplýsingar eru það ekki.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að að jafnaði eigi upplýsingar að vera mjög útbærar, sérstaklega upplýsingar sem eru á borði stjórnvalda. Hins vegar er alveg gríðarlega mikilvægt að við stöndum með rétti almennings til að varðveita sínar heilsufarsupplýsingar. Þar hefur verið farin sú leið að gera ýtrustu kröfur.

Landlæknisembættið hefur það hlutverk að lögum að gæta að þessum þáttum. Ég hef ekki séð ástæðu til þess enn þá að grípa inn í það verkefni landlæknis, vegna þess að (Forseti hringir.) ég tel að því sé vel fyrir komið þar. En ég heyri hvað hv. þingmaður er að segja. Það hafa raunar fleiri spurt þessarar spurningar. Ég held að þetta sé fyrirtaksefni í skriflega fyrirspurn.