149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:04]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024 sem byggir á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar frá mars síðastliðnum.

Ég tek undir orð hv. þm. Loga Einarssonar þegar hann segist sjá ljósið og ég held að það birtist í forgangsröð ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á þau fjölmörgu verkefni sem talið er brýnast að ráðast í við uppbyggingu hinna ýmsu innviða samfélagsins á kjörtímabilinu. Þar má nefna styrkingu heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að bæta þjónustu óháð efnahag og búsetu. Framlögð fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að halda þessari stefnu áfram. Það birtist m.a. í að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra einstaklinga og gera heilbrigðisþjónustuna gegnsærri og skilvirkari. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að veita 17 milljarða kr. til þessa verkefnis á tímabilinu. Enn á að einbeita sér að því að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni þar sem heilsugæslan myndi hýsa geðheilbrigðisteymi. Þar með verði tryggð þjónusta um heilbrigðisþjónustu um allt land.

Í meðförum velferðarnefndar er þingsályktunartillaga um heilbrigðisstefnu til næstu 10 ára. Þar er leiðarstef að almenningur í landinu búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgangur allra landsmanna er tryggður. Í því sambandi væri gott að heyra frá hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún telji framlagða fjármálaáætlun styðja við heilbrigðisstefnu og markmið hennar.

Í tillögunni um heilbrigðisstefnu er mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins orðuð. Mönnun heilbrigðisþjónustunnar verður áfram ein af stærstu áskorunum á málefnasviðinu og á það við um allt land. Heilbrigðisstofnanir fjarri höfuðborgarsvæðinu hafa átt í erfiðleikum með að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa og er nauðsynlegt að leita allra ráða til að snúa þeirri þróun við.

Því langar mig til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig hún hyggist taka á því í fjármálaáætluninni, hvort efla þurfi menntun heilbrigðisstarfsmanna eða auka fjármagn til að taka jafnvel aukinn þátt í verktakagreiðslum, eða að verktakagreiðslur aukist í heilbrigðisþjónustunni.