149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:08]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Stærsta verkefni málefnasviðs heilbrigðismála er áætlun um verulega aukningu í byggingu hjúkrunarheimila með fjölgun nýrra hjúkrunarrýma og bættum aðbúnaði á um 790 rýmum, þar af um 550 nýjum hjúkrunarrýmum. Miðað er við að ná biðtíma eftir hjúkrunarrýmum niður í 90 daga á árinu 2024.

Þau markmið eru nokkuð háleit og er spurning hvernig okkur takist að ná því. Þjóðin er að eldast og hópurinn sem nær háum aldri fer stækkandi og hlutfall þess fólks eykst. Það er mikilvægt að þjónusta þann hluta hópsins sem þarfnast aðstoðar til sjálfsbjargar og styðja við sjálfstæða búsetu heima sem lengst. Þarna koma til margir þættir; endurhæfing og efling lýðheilsu og forvarnir. Það er mikilvægt á öllum aldursstigum, og ekki síst að styðja aldraða til að vera lengur heima og jafnvel á vinnumarkaði, auk þess að efla fólk til sjálfstæðrar búsetu eins lengi og það er unnt.

En telur hæstv. ráðherra að fjármálaáætlun styðji nægilega við lýðheilsumarkmið núverandi ríkisstjórnar?